Skrifaðu undir hér ef þú vilt leiðrétta klukkuna á Íslandi! Athugið að leiðrétting á klukkunni felur í sér að seinka klukkunni um eina klukkustund, og halda þeim tíma allt árið (ekki að taka upp sumar- og vetrartíma).
(Neðst á síðunni er hlekkur á fleiri fréttir og umræður um þetta málefni.)
Á þessum árstíma velti ég því alltaf fyrir mér hvers vegna Ísland skuli enn fylgja tímabelti sem samræmist illa sólarhæð og náttúrulegum sólargangi. Staðarklukkan okkar er einfaldlega ekki rétt stillt miðað við legu landsins, og þetta misræmi hefur verið viðvarandi frá árinu 1968 þegar ákveðið var að festa landið á miðtíma (UTC) allt árið.

Afleiðingin er sú að sólin rís að jafnaði um klukkustund seinna en hún myndi gera ef við fylgdum réttu tímabelti. Munurinn er minnstur fyrir austan en mestur á suðvesturhorninu þar sem hann nemur allt að 90 mínútum. Þegar klukkan er 07:00 er líkamsklukkan því enn stillt á um 05:30 – og heilinn túlkar aðstæður sem næturhúm. Raunverulegt hádegi í Reykjavík, þegar sólin er hæst á lofti, er um 13:30 en ekki kl 12:00. Vegna norðlægrar legu Íslands verður þetta misræmi sérstaklega áberandi yfir dimmasta vetrartímann.
Grunnvísindi ekki til staðar
Ákvörðunin 1968 var að einhverju leyti rökrétt út frá tæknilegum áskorunum síns tíma. Reglulegar klukkubreytingar þóttu valda ruglingi í millilandaflugi, krefjast mikillar handvirkrar vinnu við endurstillingu klukkukerfa og skapa hættu á mistökum í rannsóknum og mælingum. Einnig var nefnt að svefn barna gæti raskast við klukkubreytingar. Mikilvægt er þó að hafa í huga að á þessum tíma vissum við afar lítið um innri líkamsklukkuna og hvernig hún stjórnar svefni, orku, líðan og hormónavirkni. Þekkingin sem mótar sviðið í dag – genin sem stjórna dægursveiflunni – voru ekki uppgötvuð fyrr en löngu síðar; uppgötvunin hlaut Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2017. Þessi grunnvísindi voru því einfaldlega ekki til staðar þegar ákvörðunin um að festa Ísland á sumartíma var tekin.
Í dag er veröldin önnur. Flugkerfi og alþjóðleg samskipti ráða vel við mismunandi tímabelti, öll klukkukerfi eru sjálfvirk og rafræn, og rannsóknir sýna skýrt að stöðugt misræmi milli líkamsklukku og staðartíma hefur neikvæð áhrif á svefn og daglega virkni. Þetta á sérstaklega við um börn og ungmenni sem reiða sig á fyrirsjáanlega morgunbirtu til að stilla innri klukkuna.
Mikilvægasta merki líkamsklukkunnar
Morgunbirtan skiptir hér höfuðmáli: hún er mikilvægasta merkið sem líkamsklukkan stillir sig eftir. Ef klukkan yrði leiðrétt myndu birtustundum á morgnana (kl. 7–12) fjölga um rúm 13% vestast á landinu. Útreikningar sýna jafnframt að björtum vetrarmorgnum kl. 9 myndi fjölga um 64 daga – sem jafngildir rúmum tveimur mánuðum yfir dimmasta tíma ársins. Með breytingunni gætu börn verið í dagsbirtu nánast alla skóladaga, gengu til skóla í birtu og fengju fyrstu frímínútur dagsins í dagsbirtu í stað niðamyrkurs. Þetta er svo sannarlega ekki smáatriði – heldur þekktur og vel rannsakaður lýðheilsuþáttur. Rannsóknir síðari ára benda einnig til þess of sein klukka geti ýtt undir seinkaða líkamsklukku og styttri svefn, sérstaklega meðal unglinga; með neikvæðum afleiðingum á heilsu, líðan, námsárangur og frammistöðu.
Grænland: raunverulegt dæmi um endurmat
Samhliða þessu sjáum við aðrar þjóðir endurmeta eigin ákvarðanir. Grænland færði klukkuna fram árið 2022 af viðskiptalegum ástæðum. Nú, tveimur árum síðar, er málið aftur komið á dagskrá hjá grænlenska þinginu, meðal annars vegna þess að foreldrar segja breytinguna hafa haft neikvæð áhrif á svefn barna. Í febrúar verður ákveðið hvort Grænland snúi aftur til fyrra tímabeltis. Það sem Grænland er að endurmeta eftir tvö ár, höfum við haldið fast við í nær sex áratugi.
Tími til kominn að setja lýðheilsu í forgang?
Á sama tíma er svefnvandi og notkun svefnlyfja mjög útbreidd á Íslandi. Við notum talsvert meira af svefnlyfjum en nágrannaþjóðir okkar og íslensk ungmenni skora illa á mörgum mælikvörðum sem varða svefn og líðan. Þótt rangt tímabelti skýri ekki alla þá þætti er ljóst að misræmi við sólina er hluti heildarmyndarinnar.
Í ljósi þess sem vísindin sýna í dag er eðlilegt að spyrja:
Er ekki kominn tími til að leiðrétta klukkuna á Íslandi og samræma hana gangi sólar? Skrifaðu undir hér!
Það væri breyting byggð á vísindum – og raunveruleg fjárfesting í betri lýðheilsu þjóðarinnar.
Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur, svefnsérfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum.
Viltu lesa þér meira til um stóra klukkumálið?
- Vildi breyta klukkunni í tilraunaskyni og leyfa þjóðinni að ráða (Alma Möller, Rúv 14.nóv 2025)
- Líklegt að ósamræmið skerði svefn landsmanna (Viðtal við Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra mbl.is 12.nóv 2025)
- Dr. Erla Björnsdóttir í Kastljósinu, 11.nóv 2025
- Grænland íhugar breytingar – Gerði Ísland mistök? (mbl.is, 6.nóv 025)
- Óbreytt klukka stöðutaka gegn vísindum og lýðheilsu (visir.is, 7.nóv 2025)
- Svefnsérfræðingur kveðst vongóður um að ný ríkisstjórn beiti sér fyrir því að seinka klukkunni um klukkustund. (Rúv, 10.nóv 2025)
- Dr. Erla ræðir Stóra klukkumálið í þættinum Einmitt með Einari Bárðar (22.nóv 2025)
- Edda Björk Þórðardóttir, sálfræðingur og dósent við Miðstöð í lýðheilsuvísindum – Um skammdegið og klukkumálið (visir.is, 26.nóv 2025)
- Stóra klukkumálið – myndband
- Meira um stóra klukkumálið – myndband
- Dr. Erla leiðréttir algengan misskilning um stóra klukkumálið – myndband
Heimildir:
- Duffy JF, Czeisler CA. (2009). Effect of light on human circadian physiology. Sleep
Med Clin. 4:165-77. - Roenneberg T, et al. (2007). The human circadian clock entrains to sun time. Curr
Biol. 17:R44-5. - Giuntella O, Mazzonna F (2017). Sunset time and the economic effects of social jetlag
evidence from US time zone borders. The Society of Labor Economists: www.solejole.org/17233.pdf - Luyster FS, Strollo PJ Jr, Zee PC, Walsh JK. (2012). Sleep: a health imperative. Sleep.
35:727-34. - van der Vinne V, et al. (2015). Timing of examinations affects school performance
differently in early and late chronotypes. J Biol Rhythms. 30:53-60. - Harrison Y (2013). The impact of daylight saving time on sleep and related
behaviours. Sleep Med Rev. 17(4): 285-92 - Janson C, et al. (1995). Prevalence of sleep disturbances among young adults in three
European countries. Sleep. 18:589-97. - Thorleifsdottir B, et al. (2002). Sleep and sleep habits from childhood to young
adulthood over a 10-year period. J Psychosom Res. 53:529-37. - Rognvaldsdottir V et al. (2017). Sleep deficiency on school days in Icelandic youth, as
assessed by wrist accelerometry. Sleep Med. 33:103-108. - Wittmann M, Dinich J, Merrow M, Roenneberg T. (2006). Social jetlag: misalignment
of biological and social time. Chronobiol Int. 23:497-509. - Hagenauer MH, Lee TM (2015). The neuroendocrine control of the circadian system:
adolescent chronotype. Front Neuroendocrinol. 33(3):211-19
Útreikningar birtustunda
a) Upplýsingar úr Almanaki Háskóla Íslands
b) Vefsíða Tandra Gaukssonar, stærðfræðings
https://tandrigauksson.wordpress.com/2018/01/07/ef-vid-stillum-klukkuna/
Skrifaðu undir hér ef þú vilt leiðrétta klukkuna á Íslandi! Athugið að leiðrétting á klukkunni felur í sér að seinka klukkunni um eina klukkustund, og halda þeim tíma allt árið (ekki að taka upp sumar- og vetrartíma).