1. Hvað er hugræn atferlismeðferð við svefnleysi?

  Rannsóknir hafa staðfest að hugræn atferlismeðferð er árangursríkasta lausn sem völ er á þegar svefnleysi er langvarandi.
  Allt að 90% þeirra sem sækja þessa meðferð ná að bæta svefn sinn verulega og árangurinn helst til lengri tíma.

  Vefmeðferð Betri svefns er byggð upp á sambærilegan hátt og hefðbundin HAM meðferð við svefnleysi. Helstu kostir vefmeðferðar eru að hún er ódýrari, gagnast öllum óháð búsetu og fólk getur stundað
  meðferðina hvar og hvenær sem er.

 2. Hversu vel virkar hugræn atferlismeðferð við svefnleysi?

  Þegar um langvarandi svefnleysi er að ræða er hugræn atferlismeðferð árangursríkasta úrræði sem völ er á.
  Meðferðin virkar fljótt og áhrifin eru langvarandi. Þetta hefur verið staðfest í mörgum stórum rannsóknum síðastliðinn áratug. Þessi meðferð bætir svefn hjá um 90% af þeim sem ganga í gegnum
  hana og stór hluti þeirra sem nota svefnlyf nær að hætta notkun þeirra.

  Hugræn atferlismeðferð er mun árangursríkari en svefnlyf og meðferðinni fylgja engar aukaverkanir.
  Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum nákvæmlega til að hámarka árangur. Þeir sem ganga í gegnum þessa meðferð verða að vera tilbúnir að breyta venjum sínum og tileinka sér nýjar
  aðferðir til að takast á við neikvæðar hugsanir.

 3. Get ég farið í þessa meðferð þó ég sé að nota svefnlyf?

  Svefnlyfjanotkun er engin fyrirstaða gegn því að þú getir sótt hugræna atferlismeðferð við svefnleysi. Eitt af því sem farið er í gegnum í meðferðinni er hvernig draga má úr svefnlyfjanotkun á árangursríkan hátt.

  Ef þú ert að nota svefnlyf en samt sem áður að sofa illa er oft árangursríkast að halda svefnlyfjanotkuninni áfram á fyrstu vikum meðferðarinnar og ná að sofa vel með lyfjunum. Þegar það hefur náðst er auðveldara að byrja markvisst að draga úr svefnlyfjanotkuninni. Stór hluti þeirra sem fara í gegnum hugræna atferlismeðferð eru að nota svefnlyf í upphafi en flestir ná að draga úr eða hætta notkuninni á meðan meðferð stendur.

 4. Er möguleiki á niðurgreiðslu frá stéttarfélagi?

  Flest stéttarfélög taka þátt í niðurgreiðslu á þjónustu Betri svefns. Hversu mikil niðurgreiðslan er fer eftir um hvaða stéttarfélag er að ræða. Til að fá nánari upplýsingar þarftu að hafa samband við þitt stéttarfélag.

 5. Hentar vefmeðferðin mér?

  Ef þú ert að glíma við svefnvanda (t.d. átt erfitt með að sofna, vaknar um miðjar nætur og átt erfitt með að sofna aftur eða vaknar of snemma á morgnana) þá er líklegt að vefmeðferðin henti þér. Ef þú aftur á móti glímir við andlega eða líkamlega erfiðleika þá myndum við vilja fá upplýsingar um það til þess að meta hvort það henti þér mögulega betur að fara í einstaklingsmeðferð á stofu. Sé grunur um kæfisvefn (öndunarþrengingar/hrotur í svefni og dagsyfja því tengd) þá er best að fá greiningu á því áður en þú byrjar í vefmeðferð hjá okkur.

 6. Hvaða gögnum er safnað um mig í vefmeðferð?

  Með því að hefja meðferð samþykkir þú notendaskilmála Betri svefns.

  Notendaskilmálar Betri svefns:

  Persónuupplýsingar sem safnað er í vefmeðferð: Þegar talað er um perónuupplýsingar er átt við um gögn sem hægt er að tengja við þig. Betri svefn safnar upplýsingum um nafn og netfang sem þú skráir inn þegar meðferð hefst. Á meðan á meðferð stendur skráir þú gögn í svefndagbók og sérfræðingar Betri svefns hafa aðgang að þessum gögnum á meðan meðferð þín stendur yfir. Sérfræðingar Betri svefns nota þessi gögn eingöngu til að veita þér persónulega ráðgjöf sé þess óskað á meðan að meðferð stendur yfir.

  Gögnum um framgang meðferðar er eytt að meðferð lokinni nema annars sé óskað eða ef þú ert þátttakandi í vísindarannsókn og hefur skrifað undir samþykki  um að nota megi gögnin á annan máta.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.