Þessi síða er ætluð starfsfólki Heilsuverndar til að vísa skjólstæðingum í meðferð við svefnvanda.
Vinsamlega fyllið út tilvísunarformið hér fyrir neðan. Í “Athugasemd með tilvísun” skal skrifa stutta lýsingu á svefnvandanum og hvort verið sé að vísa í ákveðið úrræði, t.d. hópmeðferð, vefmeðferð eða einstaklingsmeðferð. Ef um fjölþættan vanda skjólstæðings ræðir, mælum við með einstaklingsviðtölum. Sérfræðingar Betri svefns meta einnig hvaða úrræði hentar viðkomandi best.
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum er HAM-S sú meðferð sem mælt er með sem fyrsta inngrip við langvarandi svefnleysi (e. chronic insomnia).
HAM-S við langvarandi svefnleysi:
HAM-S er ætluð einstaklingum með langvarandi svefnleysi. Greiningarskilmerki langvarandi svefnleysis eru:
- Erfiðleikar með að sofna eða rofinn svefn og erfiðleikar með að sofna aftur.
- Svefnvandi hefur neikvæð áhrif á daglegt líf (t.d. þreyta, skert athygli, skert einbeiting, minnisvandi, orkuleysi, pirringur eða önnur einkenni).
- Svefnvandinn kemur fram a.m.k. þrisvar sinnum í viku og hefur staðið yfir í a.m.k. 3 mánuði
Athugið að það er ekki frábending ef einstaklingur tekur svefnlyf. Ef um eitt af eftirfarandi ræðir hjá skjólstæðingi þarf sérstaka aðgát við útfærslu á ákveðnum inngripum meðferðarinnar og munu sérfræðingar Betri svefns spyrja út í þetta áður en meðferð hefst: flogaveiki, geðhvarfasýki, alvarlegt þunglyndi, sjálfsvígshugsanir, þungun, alvarleg hjartavandamál eða ómeðhöndlaður kæfisvefn.