Orthosomnia – Þráhyggjukennd leit að ,,fullkomnum svefni”
Svefnmælitæki (e. wearable devices)
Góður svefn er grundvallaratriði fyrir líkamlega og andlega heilsu. Á tímum tækninnar njóta mælingar snjalltækja (e. wearable devices) á borð við snjallúr og snjallhringi á svefni sífellt vaxandi vinsælda og pælingar um svefnskor, HRV-streituástand og REM svefn eru orðnar algengt umræðuefni vina og vinnufélaga. Til að mynda var svefntækni markaðurinn (e. sleep tech industry) í Bretlandi metinn á 45.9 milljarða íslenskra króna á síðasta ári og spáð er að hann muni tvöfaldast fyrir árið 2030 (Chaudhuri, 2024). Markmið þessara tækja er að nýta tækniþróun til að gera einstaklingum kleift að fylgjast með svefngæðum, svefnlengd, svefnstigum, streituástandi líkamans og reglusemi svefns síns á aðgengilegan og þægilegan hátt og hjálpa fólki að bæta svefninn sinn.
Svefnmælitæki og svefnvandamál
Samhliða þessari aukningu í notkun svefnmælitækja hefur hlutfall þeirra sem leita sér aðstoðar vegna niðurstaðna svefnmælitækja farið ört vaxandi. Það getur bent til þess að einstaklingar öðlist betri innsýn inn í svefn sinn og leiti sér frekar aðstoðar ef það á við svefnvandamál að stríða. Hinsvegar virðist notkun svefnmælitækja í sumum tilfellum geta orðið til þess að einstaklingar verða ofur uppteknir af því að ná fullkomnum svefni og svefnskori. Þetta getur valdið kvíða og áhyggjum sem ýta undir og viðhalda svefnvandanum (Jahrami o.fl., 2023). Læknisfræðilegt hugtak þessarar þráhyggju um að ná hinum fullkomna svefni sem er knúin áfram af notkun svefnmælitækja, hefur verið kallað ”Orthosomnia” sem væri hægt að þýða sem ,,svefnfullkomnunarárátta” eða ,,svefnmælingarkvíði” á góðri íslensku. Hugtakið ,,orthosomnia” varð fyrir valinu þar sem þráhyggja yfir að ná fullkomnum svefni þótti svipa til þráhyggju fyrir hollu og ,,réttu” matarræði sem kallast ,,orthorexia” (Baron o.fl., 2017).
Hvað er Orthosomnia?
Hugtakið ,,Orthosomnia” var sett fram af bandarískum vísindamönnum í rannsókn frá árinu 2017 sem sýndi fram á að það að ,,nördast” yfir svefnupplýsingum sínum gæti í raun átt þátt í að gera svefntruflanir enn verri (Baron o.fl., 2017). Rannsóknin sýndi að margir eyddu óhóflega miklum tíma í rúminu til að reyna að ,,fullkomna” svefnskorið sitt á meðan aðrir upplifðu kvíða yfir því að ná ekki nægilega góðum svefni.
Hversu áreiðanlegar eru svefnmælingar snjalltækja?
Flest snjalltæki sem mæla svefn gefa t.d. upplýsingar um hreyfingu, hjartslátt og , súrefnismettun í blóði. Mörg hver geta einnig mælt svefnstig, svefnlengd, svefngæði, öndun, líkamshita og fleira. Margir þekktir svefn sérfræðingar hafa gagnrýnt þessi mælitæki og dregið áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þau gefa í efa. Haft er eftir Dr. Neil Stanley, höfundi bókarinnar How to Sleep Well, að snjalltæki sem mæla svefn geti þó varla mælt annað en hversu lengi maður sefur og hvað það tekur mann langan tíma að sofna og að eina leiðin til að greina á milli svefnstiga sé með því að skoða heilabylgjur með heilarit. Samkvæmt honum ætti fólk því frekar að hlusta á líkamann en gögnin. Katie Fischer, atferlis svefnsérfræðingur hefur einnig verið sammála þessari skoðun Neil Stanley og hefur sagt að ,,fullkominn svefn” sé ekki til og það að greina gögn svefnmælitækja of ítarlega valdi einungis streitu. Það sem skipti mestu máli sé að einstaklingar staldri við og spyrji sig: Hvernig líður mér í dag? Hef ég næga orku til að komast í gegnum daginn?
Sumir sérfræðingar hafa einnig velt fyrir sér gagnsemi svefnmælinga og hafa m.a. bent á að það sé eðlismunur á gagnsemi þess að mæla t.d svefn og hreyfingu. Því ef snjalltæki segja að maður hafi einungis gengið 2000 skref þá er auðvelt að skella sér út í göngutúr og bæta við skrefum en ef að snjalltækin segja manni hins vegar að svefninn hafi verið of stuttur eða gæðalítill, hvað skal þá gera? Ekki er hægt að fara aftur í tímann og bæta svefn liðinnar nætur og því geta slíkar upplýsingar valdið kvíða sem erfitt er að bregðast við.
Aðstæðubundin gagnsemi svefnmælinga
Það að mæla og fylgjast með eigin svefni getur þó í sumum tilvikum að sjálfsögðu haft jákvæð áhrif. Það getur til dæmis verið gagnlegt og gaman að fylgjast með gögnum úr svefnmælingum samhliða mælingum um hreyfingu þegar að einstaklingar stunda ákveðna hreyfingu eins og t.d. hlaup af miklu kappi. En það sama á kannski ekki endilega við um nýbakaða móður þar sem lítill og skertur nætursvefn fylgir oft umönnun ungabarns. Í slíkum aðstæðum getur snjalltækið sem mælir svefn farið að senda óhjálpleg skilaboð líkt og ,,þú gætir fundið fyrir að þú ert þreyttari en vanalega í dag” sem getur gert illt verra. Slík skilaboð geta valdið einstaklingum miklum kvíða og áhyggjum því það er í raun lítið sem er hægt að gera og það má ætla að neikvæð skilaboð um svefngæði fyrri nætur séu í raun það síðasta sem að einstaklingar í þessari stöðu þurfa á að halda. Það geta því verið rök fyrir því að hvíla svefnmælingar tímabundið þegar að tekist er á við nýjar aðstæður og verkefni sem geta valdið breytingum á svefnmynstri og gæðum.
Hlustum frekar á líkamann en gögnin!
Tækniþróun hefur gert einstaklingum kleift að nota snjalltæki til að mæla og fylgjast með svefni sínum sem getur veitt einstaklingum dýrmæta innsýn og lærdóm. Margir virðast þó treysta of mikið á svefnmælingar úr snjalltækjum eins og snjallúrum og snjallhringjum, í stað þess að nota innsæið og hlusta á líkama sinn. Jafnframt geta mælingar einstaklinga á svefni sínum orðið að þráhyggjufullri leit að hinum fullkomna svefni og svefngögnum sem getur snúist upp í andhverfu sína og leitt til svefnvandamála. Þar af leiðandi er mikilvægt að hafa í huga að niðurstöður slíkra svefnmælinga eru takmarkaðar og ættu ekki að ganga framar innsæinu og líkamlegri upplifun einstaklingsins á svefngæðum sínum.
Þannig í staðinn fyrir að byrja daginn á að skoða svefngögnin sín og leyfa þeim að setja tóninn fyrir daginn væri vænlegra til árangurs að staldra aðeins við, hlusta á líkamann og spyrja sig hvernig líður mér í dag? hvernig upplifði ég svefngæði mín síðastliðna nótt? og bíða frekar með að kíkja á svefnmælingagögn liðinnar nætur þar til í lok dags.
Heimildir
Baron, K. G., Abbott, S., Jao, N., Manalo, N. og Mullen, R. (2017). Orthosomnia: Are Some Patients Taking the Quantified Self Too Far? Journal of Clinical Sleep Medicine, 13(02), 351–354. https://doi.org/10.5664/jcsm.6472
Chaudhuri, A. (2024, 15. október). Sleep perfectionists: the exhausting rise of orthosomnia. The Guardian. https://www.theguardian.com/lifeandstyle/2024/oct/15/sleep-perfectionists-the-exhausting-rise-of-orthosomnia
Jahrami, H., Trabelsi, K., Vitiello, M. V. og BaHammam, A. S. (2023). The Tale of Orthosomnia: I Am so Good at Sleeping that I Can Do It with My Eyes Closed and My Fitness Tracker on Me. Nature and Science of Sleep, 15(null), 13–15. https://doi.org/10.2147/NSS.S402694