Svefn er ein af grunnstoðum heilsu, ásamt næringu og hreyfingu. Börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfa að sofa að lágmarki um 8 til 11 klukkustundir á nóttu svo vel sé. Rannsóknir benda aftur á móti til að íslensk ungmenni sofi mörg of lítið. Skortur á svefni getur haft neikvæð áhrif á námslega getu, minni og færni. Án nauðsynlegs svefns er einnig hætta á að geðheilsu og líkamlegri heilsu ungmenna hraki, en góð heilsa og vellíðan er mikilvæg forsenda þess að nemendur nái markmiðum sínum og sýni framfarir í námi.

Afar mikilvægt er að börn og ungmenni fái fræðslu um mikilvægi svefns og séu meðvituð um þann líkamlega og andlega ávinning sem felst í því að fá nægan svefn. Í aðalnámskrá grunnskóla segir einmitt að “góð heilsa sé undirstaða velfarnaðar í námi” og að “leggja þurfi rækt við að leiðbeina nemendum um að temja sér heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi”. Gott samstarf milli heimilis og skóla er nauðsynlegt og að umræðan um mikilvægi svefns sé ekki eingöngu innan veggja kennslustofunnar, heldur að foreldrar séu einnig virkir þátttakendur í þeirri umræðu. 

Námsefnið sem má finna á þessari síðu er hugsað til notkunar í kennslu barna og unglinga á grunnskólastigi. Efnið myndi t.d. henta vel í lífsleiknikennslu eða þemakennslu. Til að ná sem bestum árangri er æskilegt að fræðslan fari fram jafnt og þétt yfir skólaárið og leggja ætti áherslu á að myndefni, svo sem  “Vissir þú að”, sé sýnilegt nemendum meðan á fræðslunni stendur. Verkefnum er skipt eftir aldursstigum (yngsta- mið- og unglingastig) til hægðarauka fyrir kennara. Kennsluleiðbeiningar með verkefnunum má einnig finna undir hverju stigi fyrir sig. Þess fyrir utan má hér á síðunni finna ýmsan fróðleik sem nýtist kennurum, svo sem gagnlega tengla og glærur til notkunar í kennslu. Jafnframt eru hér upplýsingar sem hægt er að senda foreldrum, svo sem “Æskilegur svefn fyrir hvert aldursskeið”, sem tilvalið er að senda heim með föstudags póstinum þegar farið er af stað í fræðslu um svefn.

Hér má finna kennsluleiðbeiningar fyrir verkefni fyrir unglingastig:

Dreifing og notkun á efni fyrir utan kennslu er með öllu óheimil. Ef einhverjar spurningar vakna hvað námsefnið varðar má hafa samband við Hildi Björnsdóttur, hildur@betrisvefn.is. Gerð námsefnis var styrkt af Embætti landlæknis og samfélagssjóði Landbankans.


Verkefni fyrir unglingastig:


Í þessu myndbandi fjallar dr. Erla Björnsdóttir um mikilvægi svefns og tekin eru viðtöl við nokkra þjóðþekkta Íslendinga sem segja frá reynslu sinni af svefni og svefnleysi. Myndbandið er tæplega 30 mínútna langt og mætti sýna hvort sem er í heilu eða tvennu lagi og taka þá hlé fyrir spurningar og umræður.


Þessar umræðuspurningar henta vel eftir áhorf á myndina um Svefn, hvaða máli skiptir hann? Hugmynd að umræðuaðferð: Kennari skiptir nemendum í hópa og hver hópur velur sér spyril, ritara og kynni. Blöðum er síðan dreift til nemenda. Spyrill les eina spurningu upp í einu og hópmeðlimir fá nokkrar mínútur til að svara hverri spurningu. Hver og einn skrifar sitt persónulega svar á sinn miða. Þegar öll svör eru komin eru þau sett í sameiginlegan bunka. Spyrill les síðan upp öll svörin og ritari skrifar niður svör hópsins á sér blað. Allar niðurstöður teknar saman í lokin og kynnt fyrir bekknum.  




Spurningar og umræður – Kennari leggur fyrir nemendur spurningar um svefnvenjur þeirra. Spurningarnar mætti leggja fyrir einstaklingslega og/eða í hópi. Þegar allir hafa svarað eru niðurstöður teknar saman munnlega og/eða skriflega upp á töflu. Hægt er að notast t.d. við verkefnið Mínar svefnvenjur. Hér gefst tækifæri fyrir kennara að miðla mikilvægum upplýsingum um svefn og skapa umræður með því að gefa nemendum tækifæri til að tjá skoðanir sínar og spyrja spurninga.


Svefndagbókin er hugsuð sem heimaverkefni sem mætti leggja fyrir bæði í upphafi og í lok verkefnavinnu um svefn og jafnvel oftar yfir skólaárið. Hér skrá nemendur svefninn sinn í eina viku og skila síðan til kennara. Nemendur þurfa að skrá niður ýmsa þætti, svo sem skjánotkun, neyslu á orkudrykkjum, hvort þau lögðu sig og hvort þau stunduðu einhverja hreyfingu en allt eru þetta þættir sem hafa veruleg áhrif á svefninn og gæði hans. Í lok vikunnar meta nemendur síðan  hvernig þeim fannst ganga og hvað þau mættu gera betur.


Þetta verkefni er hugsað til að leggja fyrir eftir að nemendur hafa skilað svefndagbók til kennara. Hér gefst tækifæri fyrir nemendur til að ígrunda svefn sinn með ítarlegri hætti með því að rýna í dagbókina og skoða með nákvæmum hætti hvernig svefninn var yfir vikuna, hversu mikill svefninn var, hvernig gekk að vakna og sofna, hvaða þættir höfðu neikvæð áhrif á svefninn, hvað gekk í heildina vel og hvað mætti betur fara. 


Nemendum er skipt í hópa og velja sér eitt efni til að kynna fyrir bekkinn. Kynningin gæti verið í formi plakats, glærukynningar eða hvað sem nemendum dettur í hug.  Hér fyrir neðan eru tenglar sem gætu nýst nemendum við vinnuna:


KVL aðferðin (kann – vil vita – hef lært) er aðferð sem nýtist nemendum vel í námi og hjálpar þeim að átta sig á hvað þeir kunna og hvað þeir vilja læra betur með því að kanna í upphafi forþekkingu nemenda, láta nemendur setja sér markmið um það sem þeir vilja læra betur og í lokin að taka saman hvaða nýja þekking hefur orðið til. Hér mætti t.d. vinna út frá orðinu “svefn” eða “mikilvægi svefns” og skrá þá nemendur í upphafi allt sem þeim dettur í hug og þeir telja sig vita um hugtakið. Í framhaldinu fer fram ígrundun þar sem nemendur velta fyrir sér hvað þeir vilja vita meira um svefn og mikilvægi hans og í lokin eftir að búið er að fara betur yfir efnið í verkefnabankanum, geta nemendur þá tekið saman allt sem þeir hafa lært í ferlinu.


Nemendur lesa um líkamsklukkuna og svara síðan spurningum sem fylgja.


Nemendur horfa á fyrirlestur Matthew Walker um svefn og svara spurningum á meðan á áhorfi stendur. Gott er að lesa vel yfir spurningarnar áður en horft er á fyrirlesturinn. Kennari spyr síðan nemendur út úr efninu og leiðréttir ef þess þarf.


Hentugt verkefni til þess að brjóta upp kennsluna. Nemendur geta leyst krossgátuna einstaklingslega eða í hópum.


Könnun þessa er upplagt að leggja fyrir í lok verkefnavinnu um svefn. Hana má bæði vinna einstaklingslega eða í para/hópavinnu. Hægt væri að útfæra þessa könnun á ýmsan annan hátt, t.d. væri hægt að setja spurningarnar upp í Kahoot! eða skipta bekknum í lið og vera með bjölluspurningakeppni þar sem sá hópur sem telur sig vera með rétta svarið hleypur fram og svarar “bjöllu” (hægt að nota litla plastflösku fulla af hrísgrjónum ef ekkert annað er fyrir hendi).