Vítahringur svefnleysis og verkja

Við verjum um þriðjungi ævinnar sofandi og svefn er gríðarlega mikilvægur fyrir andlega og líkamlega heilsu. Hlutverk svefns er margþætt en endurnýjun frumna, orkusparnaður og endurnæring, úrvinnsla áreita, viðgerð og uppbygging eru meðal þess sem gerist í svefni.

Það er ótal margt sem hefur áhrif á svefn en þeir sem þjást af verkjum eru í aukinni hættu á að upplifa svefnvanda. Samband svefns og verkja getur orðið að einskonar vítahring. Það gefur auga leið að erfitt er að sofa þegar maður finnur til en það að sofa illa og lítið getur líka haft bein áhrif á skynjun sársauka. Svefn hefur þannig áhrif á sársaukaþröskuld og sársaukaþol okkar. Því minna sem við sofum, þeim mun lægri verður sársaukaþröskuldurinn og því minna verður þolið gegn sársauka.

Eftir svefnlitla nótt (til dæmis ef vakna þarf um miðja nótt til að mæta í flug) má oft finna hvernig líkaminn er stirður og stífur og alls kyns eymsli gera vart við sig, til dæmis vöðvabólga, brak og brestir í liðum og þess háttar. Líklega er líkaminn þarna að vakna og undirbúa sig fyrir daginn eins og hann gerir alla jafna en þegar fólk er ósofið finnur það meira en ella fyrir þessari upphitun líkamans.

Léleg svefngæði geta þannig valdið því að fólk verður næmara fyrir sársauka og verkir geta því oft aukist þegar glímt er við svefnvandamál. Þannig getur skapast vítahringur þar sem verkir hafa neikvæð áhrif á svefn og ónógur svefn leiðir til meiri verkja. Rannsóknir sýna að til að draga úr stoðkerfisverkjum og vandamálum eru sérhæfðar þol- og styrktaræfingar árangursríkasta meðferðin til lengri tíma. Rannsóknir hafa leitt í ljós aukna tíðni svefnvandamála hjá sjúklingum með gigt og stór hluti gigtarsjúklinga telur sig fá of lítinn svefn og þjáist af dagsyfju og orkuleysi. Helstu ástæður sem gigtarsjúklingar nefna fyrir svefnvanda sínum eru vöðvaspenna, fótapirringur og verkir. Því er mjög mikilvægt fyrir verkjasjúklinga að huga sérstaklega vel að svefnvenjum sínum og gæta þess að hafa reglu á svefntímum. Þá er einnig mikilvægt að forðast streituvaldandi aðstæður og stunda reglubundna slökun og létta hreyfingu (til dæmis jóga, göngu eða sund). Rannsóknir hafa sýnt fram á að minnka má verki hjá gigtarsjúklingum með því einu að bæta svefn þeirra og hugræn atferlismeðferð við svefnvanda er sú lausn sem mælt er með fyrir þennan hóp.

Erfitt getur verið að ná fullum árangri í svefnmeðferð ef verkir eru ómeðhöndlaðir og eins er það með að ná fullum árangri í sjúkraþjálfun ef svefn er ómeðhöndlaður.

Nú er í fyrsta sinn á Íslandi boðið uppá fjarmeðferð gegn svefnleysi sem er sérstaklega sniðin að einstaklingum með stoðkerfisverki.

Í því felst HAM meðferð og fræðslumyndbönd við svefnvanda frá Betri svefn og sérhæfð endurhæfingaáætlun og fræðslumyndbönd frá Netsjúkraþjálfun með það að markmiði að draga úr svefnvanda og verkjum ásamt því að auka styrk og vellíðan. Um er að ræða 6 vikna tímabil og ótakmarkaðan aðgang að sálfræðingi og sjúkraþjálfara til að vinna að því að hámarka árangur meðferðar.

Hægt er að kaupa áskrift hér !

Höfundar: Erla Björnsdóttir og Sara Lind Brynjólfsdóttir

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.