Það borgar sig að hugsa út fyrir boxið

Ég er sálfræðingur sem hef sérhæft mig í greiningu og meðhöndlun svefnvandamála. Ég hef sinnt einstaklings- og hópmeðferð við langvarandi svefnleysi sl. fimm ár meðferð doktorsnámi mínu þar sem ég rannsakaði svefnleysi og kæfisvefn. 

Það er ótrúlega gaman að sinna meðferð við langvarandi svefnleysi þar sem árangurinn er oftast mjög góður. Að ná að hjálpa fólki sem hefur glímt við langvarandi svefnleysi í mörg ár og jafnvel áratugi er ómetanlegt. Þessir skjólstæðingar eru ótrúlega þakklátir og að sjá lífsgæði þeirra batna með betri svefni er virkilega hvetjandi fyrir mig sem sálfræðing.  Ég áttaði mig þó fljótt á því að þó meðferðin sem veitt er (Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi) sé mjög árangursrík þá var aðgengi að henni verulega skert. Ég var mjög hugsi yfir þessu á mínum fyrstu árum sem starfandi sálfræðingur. Fáir sérfræðingar sinntu þessari meðferð og því voru biðlistarnir gjarnan mjög langir. Að sama skapi þá var þessi meðferð ekki í boði fyrir utan höfuðborgarsvæðið og því hafði fólk sem bjó úti á landi ekki kost á að sækja slíka meðferð. Svo má ekki gleyma kostnaðinum. Því miður er sálfærðimeðferð ekki niðurgreidd af ríkinu og það eru margir sem hafa ekki tök á því að greiða tugi þúsunda úr eign vasa í sálffæðimeðferð. 

Þessar staðreyndir ullu mér töluverðu hugarangri. Svefnlyfjanotkun Íslendinga var langt fram úr hófi og svefnvandamál gríðarlega algeng. Hér var komin meðferð sem virkar vel en þá getur fólk ekki nýtt sér hana.

Í kjölfarið fór ég að velta þeim möguleika fyrir mér að ef til vill væri hægt að nýta tæknina til þess að auka aðgengi að þessari meðferð. Á þeim tímapunkti var ég svo heppin að komast í kynni við tvo nýútskrifaða lækna sem einnig kunnu að forrita (ótrúlegt ekki satt? forritandi læknar eru ekki á hverju strái). Þeir deildu með mér þeirri hugsjón að mikilvægt væri nýta tæknina meira í heilbrigðisgeiranum og að eitthvað þyrfti að gerast í því úrræðaleysi sem ríkti við langvarandi svefnleysi. Við ákváðum því að sameina krafta okkar og búa til fjarmeðferð við svefnleysi. Þetta er svolítið eins og að fara í fjarnám eða fjarþjálfun. En fjarmeðferð er þó enn mjög framandi hugtak. Hvernig er hægt að lækna vandamál eins og svefnleysi með meðferð sem fer alfarið fram í gegnum tölvu?? 

Þetta var mikil áskorun en við tókum þarna formfasta og árángursríka meðferð og settum hana í nýjan búning. Þetta var stórt skref og töluverð áhætta fyrir okkur sem vorum að hefja okkar feril sem sérfræðingar á þessu sviði. En ástríðan sem við höfðum fyrir þessu verkefni var gríðarleg og með mikilli vinnu tókst okkur að koma verkefninu á laggirnar síðla sumars 2013. 

En hvað svo? Við vildum að sjálfsögðu vita hvort að meðferðin okkar skilaði árangri. Virkar meðferð sem veitt er með þessum hætt? Náum við raunverulega að hjálpa þeim sem koma til okkar? 

Við fengum því framhaldsnema í sálfærði til þess að vinna rannsókn á árangri okkar notenda og erum virkilega stolt af niðurstöðunum sem birtust í síðasta tölublaði Læknablaðsins: http://www.laeknabladid.is/

Þar má sjá að netmeðferð við svefnleysi skilar góðum árangri, fólk er fljótara að sofna, vaknar sjaldnar á næturnar og líður betur yfir daginn. Einnig dregur úr svefnlyfjanotkun hjá notendum og 94% þeirra sem kláruðu meðferðina myndu mæla með henni fyrir aðra sem glíma við svefnvanda. Þetta er ótrúleg viðurkenning fyrir okkur sem höfum unnið að þessu verkefni algjörlega uppá eigin spítur, meðfram fullri vinnu og með ekkert utanaðkomandi fjármagn. Þetta eru einmitt verðlaunin sem við vorum að leitast eftir, að ná að hjálpa fólki sem glímir við svefnleysi sem jafnvel hefur ekki kost á annari meðferð. Við höfum verið með sjómenn sem eru staddir lengst úti á hafi en geta samt sem áður stundað sérhæfða sálfræðimeðferð, bændur norður í afdölum sem hefðu ekki kost á að fara frá búskap til þess að sækja sér meðferð til Reykjavíkur í hverri viku og svona mætti áfram telja. 

Ég held áfram að sinna skjólstæðingum á minni stofu enda margir sem kjósa og/eða þurfa á einstaklingsmeðferð að halda. Einnig er ég enn með hópmeðferð þar sem slíkur kostur hentar mörgum. En svo sinni ég fullt af fólki í hverjum mánuði í gegnum internetið sem mér finnst frábært. Það er ómetanlegt að fá pósta frá fólki eða jafnvel hitta fólk úti á götu sem hefur lokið netmeðferð hjá okkur og náð góðum árangri. Þetta segir mér að það hafi verið rétt ákvörðun að taka þessa áhættu, leggja í þessa vinnu og þora að prufa eitthvað nýtt.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.