Svefn og fótbolti

Varla þarf að kynna fótbolta né svefn fyrir lesendum. Flest allir þekkja til fótboltans með einum eða öðrum hætti og allir sofa. Þau sem sofa vel velta venjulega svefninum ekki mikið fyrir sér. Aðra sögu er líklegast að segja um fólk sem sefur illa en sá hópur fer stækkandi með tilkomu nútíma lifnaðarhátta.

Mikilvægi svefns er óumdeilt enda getur góður svefn bætt líf einstaklinga til muna og minnkað líkur á allskyns andlegum og líkamlegum kvillum.

Þeir sem fylgjast lítið með fótbolta kunna þó að vita að um er að ræða kappíþrótt þar sem tilgangur leiksins er að koma tuðrunni í mark andstæðingsins og á sama tíma verja þitt eigið. Fótboltaleikur er í grunninn skemmtun og afþreying. Það sem sumir átta sig ef til vill ekki á er þeir sem stunda hann leggja mikið á sig, allavega á afreksstigi. Á afreksstigi fylgir honum mikið líkamlegt og andlegt álag, eysmli, verkir og meiðsli, tilfinningasveiflur og hann krefst mikillar einbeitingar og hugarorku.

Í fótboltanum er sífellt verið að leita leiða til þess að bæta frammistöðu og úrslit.

Þannig hefur að undanförnu orðið mikil framför í þekkingu og fræðslu um styrktar-og þolþjálfun og mikilvægi mataræðis og endurheimtar. Svefnin hefur hins vegar ekki fengið þá athygli sem hann á svo sannarlega skilið í þessu samhengi.

Undirritaður spilar sjálfur fótbolta í efstu deild á Íslandi með Breiðabliki. Ég hef í langan tíma lagt mikið upp úr heilbrigðum lífstíl og vil ná því besta úr líkama og huga til þess að geta stundað fótboltann minn af metnaði og fagmennsku.

Eins legg ég mikið upp úr svefninum mínum og passa að hann mæti ekki afgangi. Oftast sef ég vel en líkt og hjá flestum kemur þó fyrir að ég sofi illa eða lítið, og þá finn ég fyrir afleiðingunum t.d. einbeitingaskorti, orkuleysi, verri frammistöðu og minni líkamlegri og hugrænni afkastagetu svo eitthvað sé nefnt.

Eftir því sem ég best veit þá eru engin fótboltalið á Íslandi sem leggja sérstaka áherslu á svefnheilsu leikmanna sinna né aðstoða leikmenn við að ná sem bestum svefni.

Það hefur þó orðið framför í þessum málum á undanförnum árum. Talsverð vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu um mikilvægi svefns og íþróttahreyfingin er þar ekki undanskilin. Við erum þó langt á eftir atvinnumannaliðum í þeim fræðum. Sem dæmi réð Manchester United, á tíma Sir Alex Fergusons, til sín svefnþjálfa sem sá um að bæta svefn leikmanna. Sami svefnþjálfi hefur síðan unnið með fótboltaliðum eins og Manchester City, Real Madrid, Chelsea, enska landsliðinu o.fl.. Eins hefur hann starfað með ólympíuliðum og afreksliðum í öðrum íþróttagreinum. Árangurinn af vinnu svefnþjálfans lýsir sér í að lægri meiðslatíðini leikmanna, hraðari endurheimt, aukinni afkastagetu og bættum úrslitum. Maður spyr sig því hvort íslenskum liðum sé að yfirsjást mikilvægi svefns þegar þau leita leiða til þess að bæta frammistöðu, afkastagetu og líðan leikmanna.

Þegar við sofum þá er viðgerðarstarfsemi líkamans í fullum gangi. Seyting vaxtahormóna eykst í svefni sem hjálpar til við uppbyggingu vöðva, endurnýjun vefja og bygging próteina á sér stað. Þessi starfsemi flýtir endurheimt sem er lykilatriði fyrir okkur fótboltaleikmenn. Rannsóknir sýna að þeir sem sofa vel hafa aukið þol, bætt úthald, betri einbeitingu, hraðari hugsun og styttri viðbragstíma. Þessi atriði eru mikilvæg í fótboltanum og í raun hvaða íþrótt sem er. Rannsókn sem var framkvæmd á körfuboltaleikmönnum í bandarískum háskóla og fól í sér að leikmenn voru beðnir um að auka svefntíma sinn upp í 10 klst á nóttu, leiddi áhugaverðar niðurstöður í ljós. Skotnýting leikmanna batnaði að meðaltali um 9%, spretthraði þeirra jókst og leikmenn upplifðu betri líkamlega og andlega líðan.

Þótt viðmið svefnlengdar fyrir almenning á aldrinum 18-65 ára séu vissulega 7-9 klst. á sólarhring þá þarf afreksíþróttafólk oft lengri svefn vegna mikils álags.

Önnur rannsókn sem framkvæmd var á ungu íþróttafólki sýndi að þeir sem sváfu undir 8 klst. voru 1.7x líklegri til að meiðast en þeir sem sváfu meira en 8 klst. Einnig hafa rannsóknir sýnt að vansvefta einstaklingar hafa lægri sársaukaþröskuld heldur en þeir sem sofa betur og minna þol gagnvart sársauka, en þar getur munað allt að 20%.

Fótboltanum fylgir sársauki, eymsl og meiðsli og því getur góður nætursvefn verið hjálplegur til þess að þola þessa fylgifiska hans. Oft eru fótboltaleikmenn lemstraðir og verkjaðir en þó ekki þannig að þeir þurfi að hætta í keppni eða á æfingu. Því er góður nætursvefn eitt það besta sem leikmenn geta tileinkað sér til þess að hækka sársaukaþröskuld sinn og fá aukið þol gagnvart sársauka.  

Ég hef fengið minn skerf af meiðslum á ferilinum og vil ég segja frá einu nýlegu tilfelli. Á síðasta undirbúningstímabili æfði ég af krafti og var í fanta formi þegar stutt var í Íslandsmótið. Það voru 18 dagar í fyrsta leik þegar ég togna framan á læri. Það var smá áfall og sögðu sjúkraþjálfararnir að það tæki allavega fjórar vikur fyrir mig að verða leikfær á ný. Ég var hins vegar staðráðinn í að ná þessum leik. Ég ákvað að lengja nætursvefninn og sofa í að lágmarki 10 klst. á nóttu, ásamt því að borða hollt og stunda endurhæfingu. Eins vissi ég það að ef svefninn væri í lagi þá ætti ég auðveldara með að halda mataræðinu góðu. Rannsóknir hafa sýnt  að þeir sem eru vansvefta leita meira í einföld kolvetni, sykur og almennt óhollari fæðu en þeir sem sofa nóg. Ég sem sagt nýtti mér öll þau verkfæri sem ég vissi að gætu hjálpað mér að flýta batanum. Árangurinn var góður og 18 dögum eftir að ég tognaði framan á læri spilaði ég fyrsta leikinn á Íslandsmótinu og ég eigna það svefninum að stórum hluta til að ég skyldi ná þessum leik. Þetta er þó ekki meiri hetjusaga en það að við töpuðum þeim leik en ég gat allavega spilað með.

Umræða um andlega heilsu leikmanna hefur aukist með árunum. Það sem meðal annars er að koma í ljós er að margt afreksíþróttafólk þjáist af kvíða og þunglyndi. Því er miikilvægt fyrir afreksíþróttafólk að huga vel að svefninum fyrir líkamlega heilsu en ekki síður andlega heilsu. Í fótboltanum er sjálfstrausti hjá leikmanni iðulega þakkað þegar hann sýnir góða frammistöðu. Þeir sem hafa reynslu af íþróttum vita að það er dagssatt að frammsitaðan er betri ef manni líður vel og hefur fullt sjálfstraust.

Mögulega er ég þessa stundina að spila minn besta fótbolta á ferlinum en ég held einnig að svefninn minn hafi sjaldan verið í jafn góðum málum. Vissulega er það ekki eingöngu svefninum að þakka að vel gengur. Ég er þó sannfærður um að hann á mjög stóran þátt í velgegninni og ekki síður í almennt góðri líðan minni.

Við í Breiðablik rétt misstum af Íslandsmeistaratitlinum, sem voru gríðarleg vonbrigði. Eftir erfiða byrjun á sumrinu spiluðum við vel, settum meðal annars stigamet hjá klúbbnum í Íslandsmótinu. Eins náðum við góðum árangri á móti erlendum liðum í evrópukeppni. Við lærum af seinasta tímabili, lögum það sem betur má fara og tökum það jákvæða með okkur og byggjum ofan á það. Jafnramt því sem við sofum vel og hugum vel að okkar líkamlegu og andlegu heilsu.

Ég set svefninn í forgang og mæli með að þú gerir það sama.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.