Snjallsímar í skólum, of lítill svefn, gríðarleg aukning í notkun svefnlyfja og aukinn kvíði meðal barna – þetta er þróun sem við verðum að snúa við!

Góður nætursvefn er mikilvæg grunnstoð heilsu en meðal maðurinn ver um þriðjungi ævinnar í það að sofa. Þó svefninn veiti okkur nauðsynlega hvíld er þetta mjög virkt ástand þar sem mikil vinna á sér stað bæði í líkama og sál. Segja má að líkaminn sé að endurnæara sig og byggja sig upp þegar við sofum og skortur á svefni getur haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar á heilsu og líðan.

Sérstaklega er mikilvægt að börn og unglingar sem eru að vaxa og þroskast fái nægan svefn. Börn á leikskólaaldri þurfa að sofa um 11-13 klukkustundir á sólarhring, börn í grunnskóla (5-12 ára) þurfa um 9-11 klukkustunda svefn að jafnaði og unglingar þurfa að sofa um 8-10 klukkustundir á nóttu. Skertur svefn getur haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir börn og unglinga og má þar til dæmis nefna einbeitingaskort, athyglisbrest, minnistruflanir, orkuleysi og depurð. Langvarandi svefnskortur getur svo leitt af sér lakari námsárangur, meiri líkur á ofþyngd og auknar líkur á kvíða og þunglyndi. Það er því mikið áhyggjuefni að heyra af aukningu svefnvanda meðal íslenskra barna og aukinni notkun svefnlyfja hjá þessum hópi. Nýleg íslensk rannsókn sýndi að 15 ára börn sofa að jafnaði um sex klukkustundir á virkum dögum sem er auðvitað allt of lítill svefn fyrir unglinga. Fyrir um áratug síðan var það sjaldgæft að svefnlyf væru skrifuð út fyrir börn en stöðug aukning hefur verið á ávísunum svefnlyfja fyrir börn undanfarin ár og er aukningin margföld frá árinu 2008. Sérstaklega hefur verið aukning í notkun melantónins (lyfjaheiti Circadin). Samkvæmt lyfjaskrá er þetta lyf hugsað fyrir einstaklinga 55 ára og eldri og ekki hefur enn verið sýnt fram á öryggi og verkun lyfsins hjá börnum á aldrinum 0-18 ára. Hér að neðan má sjá mynd sem tekin var af vef landlæknisembættisins sem sýnir aukningu á ávísunum svefnlyfja fyrir 0-18 ára börn á Íslandi frá 2008-2015. Þessi mynd sýnir eingöngu lyfjaávísanir en lifið Circadin er lyfseðilsskylt hér á landi og því má ætla að raunveruleg notkun melantónins sé mun hærri þar sem hægt er að nálgast lyfið án lyfseðils í Bandaríkjunum.

 

Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að melantónin hefur áhrif á ýmsi kerfi líkamans og til dæmis hafa komið fram áhrif á æxlunarkerfi kvendýra þar sem melantónin hefur áhrif á tíðarhring og frjósemi. Það er því í besta falli skaðlaust að gefa börnum svefnlyf að staðaldri og ljóst er að mikil vöntun er á rannsóknum sem sýna fram á öryggi og langtíma áhrif þess að nota melantónin.

Þegar börn glíma við svefnvanda er margt sem ber að skoða, áður en farið er að gefa börnum svefnlyf s.s. lífsstíl, hreyfingu, matarræði, neyslu orkudrykkja, skjánotkun og fleira. Gríðarleg aukning hefur orðið í notkun snjalltækja hjá börnum og eru þessi tæki jafnvel farin að hafa truflandi áhrif á skólastarf hér á landi og skólastjórnendur hafa sagt það ómögulegt að banna þessi tæki í kennslustofum. Þetta er að sjálfsögðu mjög varhugaverð þróun og mikilvægt er að bregðast við þessu með einhverjum hætti og setja skýrar reglur um notkun snjalltækja fyrir börnin okkar, bæði innan veggja heimilisins og í skólanum. Ekkert barn þarf að vera í samskiptum við umheiminn og límdur við snjalltæki öllum stundum en öll börn þurfa nægan svefn. Ef þau fá ekki nægan svefn mun það bitna bæði á líðan þeirra og heilsu og því er svo gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að vernda börnin okkar og tryggja það að þau hafi tækifæri til þess að ná fullum nætursvefni. Snjalltæki eiga ekki heima inní svefnherbergjum og notkun þeirra 1-2 klukkustundum fyrir svefn getur haft slæm áhrif á nætursvefn. Mikil aukning hefur mælst í kvíða hjá börnum og má telja líklegt að samfélagsmiðlar og sú óraunhæfa glansmynd sem þar birtist gjarnan eigi stóran þótt í þessari neikvæðu þróun. Íslensk rannsókn sem fjallað var um í fljölmiðlum nýverið sýndi að um þriðjungur barna notar tölvu eða spjaldtölvu á fyrsta æviárinu sem eru sláandi niðurstöður. Er þetta raunverulega sá vegur sem við viljum feta? Það er mikið áhyggjuefni hversu litlar reglur eru víða um skjánotkun barna og að brugðist sé í auknum mæli við svefnvanda þeirra með því að gefa þeim lyf sem við ekki vitum hvaða áhrif hafa á þau til lengri tíma. Er ekki kominn tími til að við öxlum ábyrgð og verðum fyrirmyndir fyrir börnin okkar? Er það raunverulega svo óraunhæft að leggja frá sér snjalltækin á kvöldin, banna notkun þeirra í skólastofum og bregðast við svefnvanda barna með öðrum aferðum en lyfjagjöf?

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.