Skólinn byrjar of snemma fyrir unglinga

Hver kannast ekki við ungling sem vill vaka fram eftir allri nóttu og sofa til hádegis? Foreldrum finnst þessi hegðun unglingsins ef til vill óásættanleg og að þeirra mati væri betra ef hann færi að sofa fyrr, sérstaklega ef það er skóli daginn eftir. 

Öll höfum við innbyggða líkamsklukku eða dægursveiflu. Þegar börn komast á kynþroskaaldur verða miklar breytingar á svefnmynstri þeirra. Ein af þessum breytingum er sú að dægursveiflan færist til og verður allt að þremur klukkustundum seinni en hjá fullorðnu fólki. Það að unglingurinn fari að sofa klukkan tíu er því svipað og ef fullorðinn einstaklingur færi að sofa klukkan sjö eða átta. Sama gildir á morgnana, að ætlast til þess að unglingur fari á fætur klukkan sjö er svipað og að ætlast til þess að fullorðinn einstaklingur fari á fætur klukkan fjögur eða fimm að nóttu. Auk þess þurfa unglingar meiri svefn en fullorðnir. Svefnþörf unglinga er um átta til tíu klukkustundir á sólarhring.  

Nýleg rannsókn* sem gerð var á nemendum 10.bekkjar í grunnskólum Reykjavíkur sýndi að einungis 22,9 prósent þeirra náði viðmiðum um ráðlagða svefnlengd þrátt fyrir að ríflega helmingur teldi sig sofa nóg. 

Flestir unglingar landsins stunda nám og byrjar skólinn á bilinu átta til hálf níu. Það er því erfitt fyrir unglinga að mæta í skólann á réttum tíma og fá nægilega langan nætursvefn. Rannsókn** sem framkvæmd var við háskólana Oxford, Nevada og Harvard leiddi í ljós að hentugt væri fyrir 16-18 ára unglinga að hefja skólastarf milli klukkan tíu og ellefu. 

Ítrekað hefur verið sýnt fram á áhrif svefns á minni og nám. Lítill svefn hefur neikvæð áhrif á getu okkar til að læra. ***Smábærinn Edina í Minnisóta í Bandaríkjunum þar sem unglingar höfðu byrjað skóladaginn kl. 7:25 færðu upphaf skóla til kl. 8:30. Þessar breytingar urðu til þess að einkunnir á samræmdum SAT prófum þar í landi hækkuðu marktækt. Í kjölfarið voru gerðar stærri kerfisbundnar rannsóknir þar sem upphaf skóla var seinkað í fleiri fylkjum og niðurstaðan var sú sama, einnkunnir á samræmdum prófum hækkuðu töluvert. 

Námsframvinda unglinga er ekki það eina sem við þurfum að hafa áhyggjur af ef unglingar fá ekki góðan nætursvefn. Án nauðsynlegs svefns er líklegt að geðheilsa, líkamlegt ástand, mataræði, einbeiting og fleira fari úr skorðum með neikvæðum afleiðingum. Hafa þarf í huga að unglingsárin er æviskeiðið sem er viðkvæmast fyrir andlegum sjúkdómum, svo sem þunglyndi, kvíða, geðklofa og sjálfsvígshugsunum. REM svefn er mikilvægur fyrir tilfinningaúrvinnslu. Hann kemur að mestu leiti fram seinni hluta nætur og er því sá svefn sem unglingar missa af þegar þeir vakna snemma til að fara í skólann. 

Það að hefja skóla unglinga snemma dags virðist stangast á við meginmarkmið menntakerfisins og tel ég því ráðlegt að seinka upphafi skóladags hjá þeim. 

*Rögnvaldsdóttir, V., Valdimarsdóttir, B. M., Brychta, R. J., Hrafnkelsdóttir, S. M., Arngrímsson, S. Á., Jóhannsson, E., … & Guðmundsdóttir, S. L. (2018). Hreyfing og svefn reykvískra ungmenna. Laeknabladid104(2), 79.

**Paul Kelley, Steven W. Lockley, Russell G. Foster & Jonathan Kelley (2015) Synchronizing education to adolescent biology: ‘let teens sleep, start school later’, Learning, Media and Technology, 40:2, 210-226, DOI: 10.1080/17439884.2014.942666

***Wahlstrom, K. (2002). Changing times: Findings from the first longitudinal study of later high school start times. NASSP Bulletin, 86(633), 3–21.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.