Nátthrafnar og morgunhanar – er raunverulegur munur á fólki eða snýst þetta allt um venjur?

Líkamsklukka flestra er örlítið lengri en 24 klukkustundir en þó er talsverður einstaklingsmunur hér á, sumir eru með styttri dægursveiflu og aðrir lengri. Þetta hefur áhrif á aðlögunarhæfni þegar kemur að breytilegum vinnu- og svefntíma. Rannsóknir sýna að einstaklingar með stutta dægursveiflu eru yfirleitt kvöldsvæfir og árrisulir (svokallaðar A-týpur eða morgunhanar) einstaklingar með lengri dægursveiflu eiga auðveldara með að vaka lengi á kvöldin og sofa fram eftir á morgnana (B-týpur eða nátthrafnar). Jafnvel þó að lengd dægursveiflunnar sé arfbundin eru kenningar um að hún breytist einnig töluvert með aldri. Þannig gæti hún lengst á unglingsárum en styst þegar aldurinn færist yfir. Þessar hugmyndir gætu skýrt aukna svefnþörf unglinga og þá staðreynd að gamalt fólk fer gjarnan fyrr að sofa og vaknar að sama skapi oft eldsnemma á morgnana.
„A-týpur“ eru þeir sem vakna snemma á morgnana, eru endurnærðir og reiðubúnir að takast á við verkefni dagsins. Þessir einstaklingar eru virkir og afkastamiklir í byrjun dags og fara snemma að sofa á kvöldin. „B-týpur“ vaka hins vegar lengi á kvöldin og eiga gjarnan erfitt með að vakna snemma á morgnana. B-týpan er ekki mjög virk á morgnana en þegar líða tekur á kvöldið eykst virknin og hugmyndir og sköpunargáfa losna úr læðingi. Það er þó ekki svo einfalt að fólk skiptist alfarið í A- eða B-týpur, meirihluti fólks er einhvers staðar á mitt á milli og eins og áður sagði breytist þetta gjarnan með aldrinum. Það má því segja að vissulega sé til staðar raunverulegur munur á fólki er kemur að þessu en venjur okkar hafa líka mikil áhrif og flest höfum við góða aðlögunarhæfni og getum vanið okkur á að vakna fyrr eða sofna seinna ef aðstæður kalla á það.
Segja má að nútímasamfélag sé nokkuð sniðið að A-týpunni, vinnudagurinn er oft skipulagður frá 8–4 eða 9–5 sem hentar A-týpunni vel. B-týpum myndi líklega henta betur að vinna frá 11–19 en slíkt reynist erfiðara út frá þeim ramma sem samfélagið hefur skapað okkur. Oft er B-manneskjan litin hornauga og hún jafnvel talin löt. Þetta er ósanngjarnt því að sjálfsögðu er hægt að afkasta alveg jafn miklu þótt vinnudagurinn hefjist seinna. Staðreyndin er hins vegar sú að B-manneskjur verða oft að þröngva sér inn í þennan hefðbundna ramma og því hafa rannsóknir sýnt að þessir einstaklingar fá gjarnan minni svefn (fara seinna að sofa en þurfa þó að vakna snemma til vinnu) enda eru svefnvandamál nokkuð algeng í þessum hópi. Þessir einstaklingar sækja líka frekar í vaktavinnu eða vinnu sem býður upp á sveigjanlegri vinnutíma.

Dagljósalampar geta verið hentugir til þess að rétta af dægursveiflu og sem dæmi gætu nátthrafnar sem þurfa að mæta snemma til vinnu notað slík ljós um leið og þeir vakna á morgnana og þannig flýtt dægursveiflunni smám saman þar til æskilegum svefntíma er náð. Ef svefnvandamál eru viðvarandi og fólk er að fá að staðaldri minna en 6 klukkustundir af svefni á sólarhring er mælt með að ráðfæra sig við sinn heimilislækni eða sálfræðinga sem sérhæfa sig í meðhöndlun svefnvandamála.

Hér getur þú kannað hvort hugræn atferlismeðferð við svefnleysi henti þér

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.