Hvernig getur bættur svefn hjálpað þér að takast á við krabbamein? Góð ráð við svefnleysi byggð á rannsóknum á krabbameinssjúklingum

Flestir upplifa svefnleysi einhvern tíma á lífsleiðinni en líkurnar á því að glíma við svefnleysi aukast með aldri og við alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein. Um 30-50% krabbameinssjúklinga glíma við svefnleysi en vandamálið er oft vangreint og leita sjúklingar sér ekki alltaf aðstoðar.

Þegar krabbameinssjúklingar fá nægan svefn minnka áhyggjur hjá þeim, stresshormón lækka og ónæmiskerfið virkjast.

Til mikils er að vinna með meðhöndlun svefnleysis því góður svefn styrkir ofnæmiskerfið og getur hjálpað þér að takast á við sjúkdóminn og aukaverkanir meðferðarinnar. Meðal jákvæðra áhrifa bætts svefns er minnkuð þreyta, bætt verkjaþol og minnkuð áhættu á kvíða og þunglyndi. (http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/15675653)

Mikilvægt er að greina orsök svefnleysis ef hún er enn til staðar

Fyrsta skrefið er að skilja orsökina svo hægt sé að meðhöndla svefnleysið. Ef að orsökin er enn til staðar er mikilvægt að átta sig á henni og bregðast við með því að ræða vandann við þinn lækni. Meðal algengra orsaka fyrir svefnleysis hjá krabbameinssjúklingum eru: (http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/15675652)

  • Verkir, andnauð, hósti, ógleði eða kláði
  • Ný lyf, aukaverkanir eða fráhvörf
  • Óreglulegt svefnmunstur
  • Kvíði og þunglyndi
  • Ofnotkun á kaffi, áfengi eða tóbaki
  • Hormónabreytingar og hitaköst

Svefnleysi veldur dagsyfju sem leiðir oft til vítahrings slæmra svefnvenja og svefntruflana

Margir sjúklingar þekkja það að þung meðferð eða verkir raski svefni og orsaki beint svefnleysi. Það þekkist einnig vel að þegar meðferð líkur og verkir hafa verið meðhöndlaðir að svefnleysið sé enn til staðar og sé orðið sjálfstætt vandamál. Það orsakast oft af því að svefnleysið er farið að valda óheilbrigðu svefnmynstri og óhjálplegum hugsunum um svefn sem geta viðhaldið vítahring svefnleysis.

Dæmi um einn algengan vítahring er þegar þreyta yfir daginn veldur því að þú færð þér blund, blundurinn veldur svo því að þú nærð ekki að sofna og liggur andvaka um kvöldið og verður enn þreyttari næsta dag, hefur áhyggjur af svefni næstu nætur og færð þér aftur blund til að bæta þér upp svefntapið.

Í tilfellum langvarandi svefnleysis þarf að huga að því að breyta svefnvenjum og óraunhæfum hugsunum um svefn til þess að rjúfa vítahringinn.

Meðhöndlun svefnleysis byggir á meðhöndlun undirliggjandi vanda og bætingu á svefnhegðun

Í tilfelli krabbameinssjúklinga er mikilvægt að viðeigandi einkennameðferð sé notuð til að minnka áhrif verkja, ógleði, kláða og mæði. Mikilvægt er að láta lækni eða hjúkrunarfræðing vita um slík einkenni eða breytingar á þeim til þess að mögulegt sé að veita viðeigandi meðferð.

Svefnlyf geta hjálpað til við að meðhöndla skammvinnt svefnleysi. Þau eru aðeins ætluð meðferðar í nokkrar vikur nema önnur ráð hafi verið reynd án árangurs.

Svefnhegðunarmeðferðir eru áhrifameiri til þess að ná langtíma árangri.  Með þeim er unnið að því að bæta svefnrútínu, gera umhverfið svefnvænna, minnka stress og bæta svefntengda hegðun um daginn. (http://www.cancer.net/navigating-cancer-care/side-effects/sleeping-problems-insomnia)

Svefnleysi er afar algengt hjá krabbameinssjúklingum og getur haft áhrif á getu þeirra til að takast á við sjúkdóminn og meðferðina. Í sumum tilfellum er hægt að finna orsök svefnleysis en hjá mörgum heldur svefnleysi áfram eftir að vandamálið hefur verið meðhöndlað. Þá er mikilvægt að rjúfa vítahring sem viðheldur svefnleysinu með því að takast á við hegðun og hugsanir tengdar svefni.

Ef þú átt við langvarandi svefnvandamál að stríða og vilt sofna hraðar, auka orku og bæta minni er gott að athuga hjá þínum lækni hvort að svefnmeðferð sé viðeigandi. Þetta á sérstaklega við ef þú  finnur einnig fyrir syfju og þreytu yfir daginn. Þú getur einnig svarað spurningalista á Betri svefn til að athuga hvort að meðferð henti þér.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.