Hinn alþjóðlegi svefndagur 2014: Góð ráð við svefnleysi

Í dag, þann 14 mars er alþjóðlegur dagur svefnsins (World sleep day – http://worldsleepday.org/) en tilgangurinn með deginum er að minna á hversu mikilvægur svefninn er fyrir andlega og líkamlega heilsu. Staðreyndin er sú að svefntími okkar er alltaf að styttast og svefnvandamál eru gríðarlega algeng í nútímasamfélagi. Svefninn er grunnstoð heilsu líkt og góð næring og reglubundin hreyfing og því er afar mikilvægt að huga vel að svefninum og tileinka sér góðar svefnvenjur. í tilefni dagsins birtum við hér 10 mikilvæg svefnráð sem gott er að fara eftir.

  1. Hafðu reglu á svefntímum. Reyndu að fara alltaf á sama tíma í rúmið á kvöldin og á fætur á morgnana, jafnvel þó þú hafir sofnað seint eða sofið lítið nóttina áður.
  2. Stundaðu reglubundna hreyfingu. Reglubundin hreyfing eykur svefngæði. Forðast skal þó mikla hreyfingu skemur en þremur tímum fyrir háttatíma.
  3. Borðaðu reglulega og ekki fara svangur/svöng að sofa. Hungur getur truflað svefninn en létt snarl á kvöldin getur verið skynsamlegt. Forðast skal þó þungar máltíðir rétt fyrir svefninn.
  4. Neyttu koffeins í hófi. Ef þú átt erfitt með svefn er æskilegt að sleppa kaffidrykkju eftir klukkan 14.00 á daginn og að forðast einnig aðra koffeinneyslu, t.d gos- og orkudrykki.
  5. Dragðu úr áfengsneyslu. Áfengisneysla á kvöldin veldur grynnri svefni og auknum líkum á að vakna endurtekið yfir nóttina.
  6. Forðastu tölvunotkun og sjónvarpsgláp klukkustund fyrir svefninn. Ekki er æskilegt að horfa á sjónvarp eða vera í tölvunni alveg fram að háttatíma. Mikilvægt er að koma sér upp rólegri kvöldrútínu og gera líkama og sál tilbúin fyrir svefninn.
  7. Ekki reyna að sofna. Ef þú áttt erfitt með að sofna er ekki æskilegt að liggja í rúminu tímunum saman og reyna að sofna. Það gerir vandamálið einungis verra. Farðu frekar framúr og gerðu eitthvað rólegt frammi í skamma stund og farðu svo aftur í rúmið þegar þig syfjar á ný.
  8. Notaðu rúmið eingöngu fyrir svefn og kynlíf. Þetta hjálpar líkama og sál að tengja rúmið og svefnherbergið við syfju, ró og svefn.
  9. Feldu klukkuna. Það að fylgjast með klukkunni þegar verið er að reyna að sofna getur valdið pirringi, kvíða og gremju sem hefur neikvæð áhrif á svefninn
  10. Forðastu blund yfir daginn. Þó það geti verið freistandi að halla sér í smá stund á daginn eftir erfiða nótt þá er það ekki ráðlagt þar sem blundur getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.