Af hverju fer hugurinn á flug loksins þegar ég ætla að fara að sofa ?

Kannast þú við það að leggja höfuðið á koddann eftir langan dag, úrvinda af þreytu og ætla aldeilis að svífa inn í draumalandið helst á örfáum mínútum og vona að nóttin verði góð og þú vaknir úthvíld(ur) morguninn eftir? Svo líður tíminn, þú lítur á klukkuna og sérð að það eru einungis örfáar klukkustundir þar til þú átt að vakna og þú ennþá glaðvakandi, byltir þér og ert með hugann uppfullann af ýmis konar hugsunum og jafnvel áhyggjum. Minnstu vandamál verða skyndilega óyfirstíganleg í huga þér og þú getur alls ekki fest svefn fyrr en þú finnur lausn á vandanum eða kemur upp með stórsnjallar hugmyndir sem þú ætlar að ráðast í strax á morgun.

Afhverju gerist þetta ?

Við sofum um 1/3 af ævi okkar og þótt raunverulegur tilgangur svefns sé að einhverju leiti óljós, þá vitum við að gríðarlega margt er að gerast í líkama okkar á meðan við sofum þrátt fyrir að við verðum ekki vör við neitt. Má þar nefna endurnýjun og enduruppbyggingu í frumum líkamans þar sem við meðal annars festum minningar í langtímaminni, vaxtarhormón myndast og fleira sem ekki verður farið nánar út í í þessari færslu.

Einn stærsti hluti heilans, framheilinn, gegnir gríðarlega stóru hlutverki í okkar daglega lífi þegar kemur að rökhugsun, skipulagi, frumkvæði, vinnsluminni, sjálfsstjórn, dómgreind, tilfinningum ofl.

Heilinn okkar þarf sinn hvíldartíma, rétt eins og við, og á kvöldin má segja að komið sé að einhverskonar “vaktafríi” hjá ýmsum stöðvum heilans. Þar á meðal eru stöðvar í framheilanum sem þurfa sinn hvíldartíma. Það þýðir að rökhugsun okkar og öll almenn skynsemi er farin í frí, fram að næsta morgni. Þetta getur valdið því að ýmiskonar vandamál og áhyggjur eiga það til að vaxa í augum okkar seint á kvöldin eða nóttunni.

Þessi vandamál þurfa ekki alltaf að vera stór. Það að átta sig á að maður gleymdi bókuðum tannlæknatíma næsta dag og gerði ekki ráð fyrir honum í dagsskipulaginu getur eyðilagt heila nótt fyrir okkur á meðan þessar starfsstöðvar heilans eru í fríi. Einnig geta áhyggjurnar snúið að okkar eigin heilsu, samskiptum, svefnvanda, skóla, vinnu og ýmsu öðru sem við þurfum að takast á við í daglegu lífi.

Hvað get ég gert til að vinna bug á áhyggjum sem sækja að mér seint að kvöldi og nóttu ?

Eitt ráð er að þjálfa sig í því að taka áhyggjurnar ekki með í rúmið. Þannig þurfum við ef til vill að breyta venjum okkar á einhvern hátt í kvöldrútínunni. Svefnherbergið ætti að vera staður sem eingöngu er bundin við svefn. Sem þýðir að við viljum ekki taka áhyggjurnar með inn í svefnherbergi. Gott ráð til að bægja áhyggjunum frá er að taka frá 10-15 mínútur á kvöldin og búa til svokallaða áhyggjustund. Þar með getum við punktað niður hjá okkur allt sem brennur á huga okkar á þeirri stundu og jafnvel skoðað plan næstu daga til að tryggja að við vitum hvað framundan er. Ef óboðnar áhyggjur rata með inn í svefnherbergið þjálfum við okkur í að bægja þeim frá með því að segja sjálfum okkur að þessar áhyggjur eru ekki þess virði á þessari stundu, ef þær verða áfram til staðar á morgun þá verða þær teknar fyrir í áhyggjustund næsta dags.

Í framhaldi af þessu er vert að rifja upp tvö mikilvæg svefnráð.

  • Ekki reyna að sofna. Ef þú átt erfitt með að sofna er alls ekki æskilegt að liggja í rúminu tímunum saman og reyna að sofna. Það gerir vandamálið einungis verra og býður einnig upp á að hugurinn fari á flug. Farðu frekar fram úr rúminu og gerðu eitthvað rólegt frammi í skamma stund og farðu svo aftur í rúmið þegar þig syfjar á ný.
  • Feldu klukkuna. Vekjaraklukkan á ekki endilega erindi í svefnherbegið og það að fylgjast með henni þegar við erum lengi að festa svefn getur valdið pirringi, kvíða og gremju sem hefur neikvæð áhrif á svefninn og skapar vettvang fyrir neikvæðar hugsanir í rúminu. Ef þú kannast við það að vera stöðugt að líta á vekjaraklukkuna yfir nóttina og hugsanir á borð við “Ef ég sofna núna, þá næ ég 5 tímum” og svo klukkutíma seinna sérðu að þú ert ekki sofnuð(aður) og þá nærðu fjórum tímum samkvæmt klukkunni þá mælum við með að þú prófir að fjarlægja vekjaraklukkuna. Vekjaraklukkan getur með þessu móti verið afar óhjálpleg. Gott ráð er að venja sig á að á meðan vekjaraklukkan hringir ekki þá er nótt og þá eigum við að sofa án þess að spá í tíma, stað og stund. Sumir taka til þess bragðs að snúa klukkunni við svo ekki sjáist á skjáinn, eða jafnvel setja hana undir rúm þannig að hægt sé að heyra í henni þegar hún hringir. Aðalatriðið er að leita leiða sem henta þér.

 

 

 

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.