Hvað felst í svefnleysi?
Kannast þú við að eiga erfitt með að sofna, vakna upp á næturnar og geta ekki sofnað aftur eða vakna fyrr en þú ætlaðir þér á morgnanna og geta ekki sofnað aftur? Allt framangreint er dæmi um svefnvanda en langvarandi svefnleysi getur haft neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.

Hvað er kvíði?
Margir glíma við kvíðvænlegar hugsanir af einhverju tagi á hverjum degi. Við getum til að mynda verið stressuð fyrir verkefnum sem við þurfum að skila af okkur, prófum, ákvörðunum, breytingum eða öðru sem kemur upp í hversdagsleikanum. Kvíði er lífeðlisfræðilegt viðbragð líkamans við aðstæðum sem vekja með okkur ótta. Fólk getur upplifað kvíðaviðbragðið á mjög ólíkan hátt en það getur til að mynda birst í roða í andliti, brjóstverk, hraðari hjartslætti eða magaverkjum. Öll þessi lífeðlisfræðilegu viðbrögð hafa fylgt okkur í gegnum aldanna rás og hjálpað mannfólkinu að komast af þegar raunveruleg hætta steðjar að, til dæmis með því að flýja ógnvekjandi dýr eða forðast að ganga of nærri klettabrún. Þegar kvíðaviðbragðið er hins vegar farið að virkjast í tíma og ótíma eða tilfinningin er viðvarandi þá er kvíðinn orðinn óhóflega mikill og farinn að hafa hamlandi áhrif á líf okkar. Þá er kvíði hættur að vera hjálplegur og farinn að há okkur í daglegu lífi okkar.

Kvíði og svefn
Margir þeirra sem kljást við svefnleysi kannast við það að óþægilegar hugsanir haldi fyrir þeim vöku á kvöldin. Stundum byrjar svefnleysi vegna kvíðvænlegra hugsana en þegar vandamálið sem olli hugsununum er yfirstaðið situr svefnleysið eftir. Í öðrum tilfellum getur svefnleysið sem slíkt ýtt undir vanlíðan og kvíða. Í báðum tilfellum er um vítahring að ræða sem er mikilvægt að brjóta upp. Markmiðið með hópmeðferðinni Svefn og kvíði er að vinna með bæði svefnleysi og kvíða og uppræta þann vítahring sem skapast á milli þessara tveggja þátta.

Hvenær hefst næsta hópmeðferð?
Næsta hópmeðferð er ætluð ungu fólki á aldrinum 18-35 ára. Hún hefst þriðjudaginn 15. september 2020 og stendur yfir í sex vikur. Hópurinn (8-12 manns) hittist einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Í ljósi COVID-19 verður ítrustu sóttvarna gætt og kjósi fólk að sitja tímana í gegnum fjarfundarbúnað er það velkomið.

Meðferðinni er stýrt af sálfræðingum sem hafa sérþekkingu á vandanum. Verðið er 64.900 kr og er meðferðin niðurgreidd af stéttarfélögum. Skráning fer fram á netfanginu betrisvefn@betrisvefn.is.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.

Ráðstefna um svefn með Matthew Walker í Hörpu 1. febrúar 2021

Finna miða hér