🌙 Hvað er jóga nidra – og hvers vegna ættir þú að prófa?

Ég man enn fyrsta skiptið sem ég lagðist niður í fyrsta jóga nidra tímann minn. Ég vissi ekki almennilega hvað þetta var – en eftir á var eins og ég hefði farið í ferðalag inn á við sem róaði allt taugakerfið mitt.

Hvað er jóga nidra?

Jóga nidra, oft kallaður “jógískur svefn”, er leidd meðvituð djúpslökun þar sem líkaminn fær að slaka alveg á – en hugurinn helst vakandi á ákveðnu stigi meðvitundar. Þú liggur á bakinu, með teppi yfir þér og púða undir höfði og jafnvel púða undir hnjánum einnig, og fylgir rödd leiðbeinanda sem fer með þig í gegnum líkamskönnun, öndunaræfingar og sjónræna ímyndun.

Það sem gerir jóga nidra sérstakt er að það leiðir okkur í ástand milli svefns og vöku – þar sem taugakerfið fær að hvílast djúpt. Jógarnir segja að 45 mínútur af jóga nidra getur haft jafn endurnærandi áhrif á líkama og huga og 2-3 klst. svefn!

Hvernig getur jóga nidra hjálpað?

  • 💤 Bætt svefn – hjálpað þér að sofna og aukið gæði svefnsins
  • 😌 Minnkað streitu og kvíða
  • 🤕 Mildað verki, spennu og streitueinkenni
  • 🧠 Aukið einbeitingu og athygli
  • … og margt fleira.

Fyrir mig hefur jóga nidra haft djúp áhrif á bæði svefninn minn og andlega líðan. Ég hlusta oft á jóga nidra æfingar á kvöldin þegar ég þarf að „loka deginum“ með mýkt – eða eftir erfiðan dag þegar líkaminn kallar á frið.

Ásetningur (Sankalpa) – Fræ í meðvitund

Í jóga nidra bjóðum við huganum að velja sér ásetning: milda setningu eða innra loforð sem við endurtökum í slökun. Þetta getur verið eitthvað eins og:

 „Ég leyfi mér að hvílast.“

„Ég er örugg.“

„Ég er nóg – nákvæmlega eins og ég er.“

„Ég er að læra að treysta lífinu og sjálfri mér.“

„Ég rækta innri frið með mýkt og þolinmæði.“

„Ég treysti lífsflæðinu og líkama mínum.“

„Ég hlusta á þarfir mínar með virðingu.“

„Ég fylgi hjartanu mínu með hugrekki.“

… eða eitthvað allt annað.

Ásetningurinn er líkt og fræ sem plantað er djúpt í hugann þegar hann er opnastur og móttækilegur – og með tímanum byrjar fræið að vaxa og hafa áhrif á daglega líðan.

Fyrir hverja er jóga nidra?

Jóga nidra hentar öllum – líka þeim sem eiga erfitt með að hugleiða eða stunda slökun. Í fyrstu kann hugurinn að vera órólegur og erfitt að ná djúpri slökun, en með æfingu fer líkaminn að þekkja þetta ástand og svara því með ró og jafnvægi. Líkt og að styrkja vöðva með reglulegri hreyfingu, styrkjum við taugakerfið með slökun og nærum innri frið. Ávinningurinn eykst gjarnan með hverri æfingu.

Það er í raun ekki hægt að gera jóga nidra rangt, þú þarft ekkert að gera, bara finna og vera. Það er frábært fyrir fólk á öllum æviskeiðum, hvort sem þú ert að glíma við svefntruflanir, hormónasveiflur, streitu, kulnun eða bara þráir ró og frið.

Prófaðu sjálf

Ég mæli með að þú takir frá 20–30 mínútur, komir þér þægilega fyrir í rólegu umhverfi og hlustir á eina af jóga nidra æfingunum sem finna má í SheSleep appinu. Eða mætir í jóga nidra viðburð hjá SheSleep en við bjóðum einmitt SheSleep áskrifendum upp á reglulega jóga nidra tíma í Fantasíu, Vinnustofu Kjarval, auk reglulegra útivistar viðburða.

🌙 Jóga nidra er einföld en öflug leið til að hlúa að taugakerfinu, hvíla hugann og rækta innri ró.

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.